Fiðringur í lappirnar

Klukkan 09:40 að staðartíma í dag verða ca 50.000 klikkhausar ræstir af stað í New York maraþoninu. 42,194988 km á mann gera rúmlega 2.000.000 kílómetra samtals!

Að ári ætla ég að leggja mína rúmlega 42 kílómetra í púkkið ásamt nokkrum vel völdum frændsystkynum. Og damn, hvað ég er kominn með fiðring í lappirnar.

Núna þegar ég er að hripa niður þessar línur erum við að spjalla saman á facebook og peppa hvert annað upp, mikið hrikalega verður þetta skemmtilegt … :)

Ég er farinn út að hlaupa!

Nýir hlaupaskór

Þann 15. október síðastliðinn varð ég fertugur. 40 ára. En samt ennþá ungur, svo það sé á hreinu!

10342993_10152427241270794_6624898281497729362_nÍ afmælisgjöf frá fjölskyldunni fékk ég nýja hlaupaskó. Ég skrifaði aðeins um Brooks Pure Connect 2 skóna sem ég keypti mér í vor, og hafa dugað mér rúmlega 700 km á þessu ári. Ég keypti þá í TRI og fékk ekki alveg nógu góðar upplýsingar þegar ég keypti þá. Þá var þetta eina parið sem var til í minni stærð á útsölu og það var greinilegt að verið var að reyna að koma þessu út. Fyrir mann sem lítið hafði hlaupið fram að þessu, þá voru þetta ekki réttu skórnir. Stelpan sem ég talaði við þegar ég mátaði nýju skóna sagði mér að Pure Connect skórnir væru keppnis/racer skór. Og hentuðu ekki í lengri hlaup. Engin furða að mér hafi liðið illa eftir sum hlaupin í sumar!

Pure Connect 3 var því rökrétt framhald á skómálunum. Þó svo að það sé minni dempun í þessum skóm en hefðbundnum hlaupaskóm, þá eru þeir miklu, miklu betri en gömlu skórnir. Þessir nýju skór eru æðislegir. Léttir, með fína dempun og passlega mjúkir. Verulega sáttur við þessa afmælisgjöf!

Og svo 19. október fór ég í fyrsta hlaupið í nýju skónum. Rúllaði rúmlega 17 km í frábæru veðri einn sunnudaginn og leið mjög vel, fyrir utan hvað þeir eru hrikalega flottir!

Bíð spenntur eftir næstu hlaupum í nýju skónum! Takk fyrir frábæra afmælisgjöf … :)

Fyrsta Poweradehlaupið

Fyrsta Powerade hlaupið mitt, og jafnframt fyrsta hlaup vetrarins, fór fram í Elliðaárdalnum í síðustu viku. Veðrið var eins og best verður á kosið og greinilegt að fleiri hafa hugsað sér gott til glóðarinnar, því það var mikið að hlaupurum sem tóku þátt. Ég hafði aldrei áður hlaupið í myrkri og var því spenntur að taka þátt og sjá hvernig þetta færi fram.

Hlaupnir eru 10 km í kringum Elliðaárdalinn, byrjað og endað við Árbæjarlaug. Af því að þetta var mitt fyrsta Poweradehlaup, þá var ég kominn tímanlega, alveg 50 mínútum fyrir hlaup. Þetta byrjaði þó ekki vel, því upphitunin fyrir hlaupið hófst á því að bruna í hraðbankann á bílnum mínum af því að ég hafði gleymt að taka með mér 300 kall í skráningargjald!

Eftir að ég kom til baka og var búinn að ná í spjaldið mitt, þá hitaði ég ágætlega upp, og var þokkalega klár í hlaupið þegar startað var. Þar sem ég hafði ekki æft mikið síðan ég hljóp hálfmaraþonið í ágúst, þá byrjaði ég aftarlega í hópnum. Fyrsti kaflinn upp að brúnni efst í Elliðaárdalnum var nánast í niðamyrkri, sem var mjög skrýtið. Ég geng með gleraugu dags daglega, en leyfi mér að hlaupa gleraugnalaus (eins og sést á myndinni hér fyrir neðan). Þessi kafli var mér því svolítið erfiður, þurfti að einbeita mér mikið bara í að halda mig inni á brautinni og snerta ekki fæturna á þeim sem voru fyrir framan mig.

Þegar ég var komin yfir brúnna hófst framúraksturinn. Ég fann mig ágætlega og keyrði upp brekkuna eftir brúnna og rúllaði fram úr fullt af fólki þar. Þegar upp á efsta punkt var komið vildi ég bara halda þokkalegum hraða og setti mig fyrir aftan 2 konur sem voru að halda ágætis hraða. Það gekk ágætlega alveg neðst niður í dalinn.

Við strákarnir höfðum hlaupið rafstöðvarbrekkuna nokkrum sinnum í sumar og ég var ekkert sérstaklega hræddur við hana. En eftir 8km hlaup, þá tók hún nokkuð í. Ég rúllaði nú samt framúr fólki í brekkunni sem var í vandræðum. Kannski tók ég hana aðeins of hratt, því ég missti 2-3 framúr mér á síðasta kílómetranum af því að brekkan tók aðeins úr mér.

Lokatími var 55:27 samkvæmt Garmin hlaupaúrinu mínu, sem ég held að sé bara fínt. Besti tíminn minn er úr Krabbameinshlaupinu í sumar, 53:46 að mig minnir.

10632795_787035901334703_4206435549850263821_nÉg stunda Crossfit nokkrum sinnum í viku með Reebok Crossfit Kötlu og þar er hlaupahópur sem hefur æft einu sinni í viku í nokkra mánuði. Þessi meistari hér til hliðar er einn af þessum hetjum og mætti með mér í Poweradehlaupið. Ég á hins vegar nokkuð í að jafna hraðann hans, þó hann sé ríflega 10 árum eldri en ég.

Ég ætla að vona að næsta hlaup þann 13. nóvember verði í jafn góðu veðri, því að þá ætla ég að mæta og bæta tímann minn!

Annars var þetta hlaup mjög skemmtilegt, meira segja á einum stað voru krakkar að fylgjast með og hvetja okkur áfram. Svo hittir maður líka vini og ættingja sem eru að hlaupa og það gerir þetta ennþá skemmtilegra.

Hlaupaskórnir mínir, Brooks Pure Connect 2

Það er víst tvennt sem maður á aldrei að spara við sig. Rúmið sem þú sefur í og skórnirn sem þú gengur í. Ég hef alltaf tekið þetta mjög, mjög alvarlega. Geng alltaf í góðum skóm hvert sem ég fer og sef eins og engill í fína Sænska rúminu mínu.

Eftir að þessi stóra hálfmaraþonákvörðun var tekin, þá fór ég að huga að því að kaupa mér nýja og almennilega hlaupaskó. Ég er svo heppinn að eiga fjölskyldumeðlimi sem hlaupa mikið og ég leitaði ráða hjá þeim og var bent á að kíkja í TRI verslun og skoða skó frá Brooks. Þetta var í byrjun febrúar 2014 og ég var ekkert byrjaður að hlaupa neitt. Það var útsala að klárast og það var eiginlega bara eitt par af skóm eftir hjá þeim í minni stærð.

Brooks Pure Connect 2Úr varð að ég keypti mér Brooks Pure Connect 2 skó sem eru mjög léttir og þægilegir. Og þvílíkur munur á þeim og gömlu adidas druslunum sem ég hafði keypt fjórum árum fyrr.

Ég man ennþá þegar ég fór í fyrsta hlaupatúrinn. Ég var búinn að bíða lengi eftir almennilegu veðri og  3. apríl kom það loksins. Ég hljóp 7,7 kílómetra og fannst ég geta flogið á þessum skóm. Þvílíkur munur! Og eftir því sem leið á sumarið varð ég ánægðari og ánægðari með skóna.

Eins og ég sagði hérna fyrir ofan að þá eru þeir mjög léttir, aðeins 201 g, sem er alveg fáránlegt. Mér fannst stundum eins og gömlu adidas skórnir mínir vógu einhver kílógrömm, slíkur var munurinn. Brooks skórnir eru hæstir í miðjunni og þröngva manni pínulítið til að stíga meira niður á framfætinum en hælnum, sem hentar mér mjög vel.

Gömlu og nýju skórnirEn svo fór pínulítið að síga á ógæfuhliðina. Eftir löng hlaup (10 kílómetrar og yfir) að þá varð ég mjög stífur í ökklunum eftir hlaupin og var jafnvel nokkra daga að jafna mig. Þurfti meira að segja að ganga 2 km einn daginn, lappirnar sögðu bara stopp. Þetta var ekkert sem ég hafði fundið fyrir þegar ég var í gömlu skónum. Ég hef getað haldið þessu þokkalegu í sumar, en það kostaði mikla rúlluvinnu og köld böð fyrir lappirnar. Ég held barasta að dempunin í þessum skóm sé ekki nóg fyrir mig.

Næstu skór sem ég kaupi verða því með meiri dempun, en ég ætla að halda mig við Brooks. Pure Flow 3 skórnir looka hrikalega vel og ég er spenntur fyrir að prófa þá og taka nokkra langa túra á mýkri skóm.