Það er góð tilfinning …

… þegar maður finnur fyrir því að það sem er verið að troða inn í hausinn á syninum virkar. Og það á einstaklega góðan hátt. Það gerðist í gær og ég hef sjaldan verið jafn stoltur af litla-stubb …

Fluttur í Microsoft Azure vefhýsingu

Í þónokkur ár hef ég hýst þessa síðu hjá vini mínum í Svíþjóð sem var að reka vefhýsingarfyrirtæki. Hann hefur ákveðið að selja fyrirtækið sitt og þurfti ég því líklega að fara að borga fyrir hýsinguna, sem mér var ekkert sérstaklega að skapi … vil helst ekki brjóta gjaldeyrishöftin.

Svo að ég ákvað að flytja síðuna yfir á hýsingarsvæði Microsoft sem kallast Azure. Þar er hægt að hýsa vefi, hvort sem þeir eru í .NET eða PHP.

Ég byrjaði á því að stofna vefinn inni í Azure stjórborðinu. Þar gat ég bara valið að ég ætlaði að stofna WordPress vef og þurfti aðeins að bíða í ca 2 mínútur þar til að vefurinn var tilbúinn.

Setti upp WordPress og var good-to-go á 5 mínútum með nýjan vef.

En ég vildi yfirfæra gamla efnið yfir á nýja vefinn.

WordPress er svo sniðugt að það var bara ekkert mál. Undir Tools > Settings er hægt að taka út allt efni á vefnum í XML skjal og setja það inn á nýja vefinn. Það tók mig aðrar 5 mínútur að fá allt efnið yfir.

10 mínútna stúss og ég var klár með nýjan vef. Eina sem var eftir var að finna nýtt sniðmát fyrir vefinn og þá var ég klár.

Einstaklega einfalt og þægilegt að setja upp. Þetta á að vera hýsing sem hangir uppi 99.999% tímans, sem er gríðarlega gott.

Sweet …

Samskiptavandamál

Hennar dagbók:

Mér fannst maðurinn minn haga sér furðulega í allt kvöld. Við höfðum ákveðið að hittast á uppáhalds veitingastaðnum okkar og fá okkur að borða saman. Ég hafði eytt deginum með vinkonum mínum að versla og var pínu sein á veitingastaðinn og hélt hann væri fúll út í mig vegna þess, en hann minntist ekkert á það. Við ræddum nánast ekkert saman á veitingastaðnum, svo ég lagði til að við myndum fara eitthvert annað þar sem við hefðum næði til að talasaman.

Hann samþykkti það, en sagði ekki mikið. Ég spurði hvort hann væri eitthvað fúll, en hann sagði nei. Ég spurði hvort þetta værimér að kenna að hann væri svona fúll. Hann sagðist ekkert vera fúll, og þetta væri bara alls ekki mér að kenna, ég ætti ekki aðhafa áhyggjur af þessu.

Á leiðinni heim sagðist ég elska hann. Hann brosti aðeins og hélt áfram að keyra. Ég skil bara ekki þessa hegðun hans og hef ekki hugmynd um af hverju hann sagðist ekki elska mig líka.

Þegar við komum heim fannst mér ég hafa tapað honum alveg, eins og hann vildi ekkert með mig hafa lengur. Við sátum í þögn inni í stofu og horfðum á sjónvarpið. Mér fannst hann vera algjörlega fráhverfur mér, eins og hann væri ekki á staðnum.

Ég þoldi þessa þögn ekki lengur og ákvað að fara að sofa. 15 mínútum seinna kemur hann inn í rúm. En ég finn að hann er ekki alveg á staðnum, greinilegaað hugsa um eitthvað allt annað. Hann steinsofnaði á meðan ég grét mig í svefn ofaní koddann minn.

Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég er viss um að hann er að hugsa um aðra konu. Kannski vill hann skilja. Líf mitt er í rúst.

Hans dagbók:

Báturinn fór ekki í gang í morgun, skil ekki af hverju.

10 ár

Ég trúi því varla. 10 ár.

10 ár síðan litli drengurinn okkar flýtti sér svona svakalega í heiminn.

Dagur Freyr fæddist 10. ágúst 2001, eftir aðeins 26 vikna meðgöngu. Í fæðingunni fékk hann heilablæðingu og eftir 6 daga baráttu yfirgaf hann þennan heim í fangi foreldra sinna.

Takk fyrir þessa sex daga, takk fyrir að kenna okkur að meta lífið upp á nýtt.

Ég elska þig

Ævintýri Sumar(vetrar)frísins

Í fyrsta skipti í nokkur ár tókum við sumarfrí saman við litja fjölskyldan í Fannafoldinni. Við leigðum okkur litla íbúð á vegum VR á Akureyri í heila viku … meira að segja heila átta daga.

Og ég ákvað að taka enga tölvu með mér, loka símanum og vera alveg off-line þessa daga. Ég meira að segja skipti um SIM kort í símanum og fékk mér frelsisnúmer sem aðeins Mummi í vinnunni og Gulla höfðu. Enginn annar. Það mátti ekki trufla mig nema ef kerfið okkar færi gjörsamlega á hliðina.

Og þetta gekk bara svakalega vel … ég skoðaði engann tölvupóst, fór aldrei á Facebook, Foursquare, Twitter eða las eina einustu frétt af Vísi, Mogganum eða öðrum fréttasíðum.

Og það sem merkilegt er, ég missti ekki af neinu. Þegar ég kom heim var slatti af pósti sem ég þurfti að fara í gegnum, en það kom mér svolítið á óvart að póstur sem ég les dags daglega, svona daily póstar, þeim eyddi ég öllum … og þetta er eitthvað sem ég les eins og biblíuna þegar ég er on-line. Þannig að póst yfirferðin tók mjög stuttan tíma, örugglega innan við klukkutíma.

Og fríið var frábært. Fyrstu dagana var ekki hægt að skilja Hlyn Snæ og Sævald vin hans að. Sævaldur býr á Akureyri og þeir hafa hist aðeins úti í Vestmanneyjum. Við tókum því þessu svolítið rólega fyrstu dagana, en þegar Sævaldur fór með fjölskyldunni til Eyja, þá fórum við á flakkið.

Við fórum í Hrísey, Ólafsfjörð og Siglufjörð einn daginn. Svo var farið á Mývatn og Dimmuborgir skoðaðar, svo og Hverirnir og Víti við Kröfluvirkjun.

Við fórum í sund á Akureyri og í Hrafnagili, hittum sunddrottningu í Sundlaug Akureyrar, fengum frændfólk og fylgifiska í kaffi og höfðum það bara svakalega gott.

Hægt er svo að skoða fullt af myndum úr sumarfríinu á Flickr.

Fyrsta heimsóknin hans Tinna

Hann Tinni okkar kom í fyrstu heimsóknina í gær. Og í fyrsta sinn varð þetta raunverulegt fyrir okkur að það væri að bætast við nýr meðlimur í fjölskylduna.

Við Hlynur Snær fórum og náðum í hann, fengum smá fyrirlestur og góð ráð frá ræktandanum. Hún lánaði okkur búr, dót og mat svo hann hefði nú eitthvað kunnuglegt með sér. Svo var bara skellt sér í bíltúr úr Mosfellsbænum í Grafarvoginn.

TinniTinni vældi næstum alla leiðina heim, en sem betur fer þá er þetta nú ekki löng leið og Hlynur Snær var duglegur að tala við hann á leiðinni.

En þegar heim var komið, þá var hún búin að segja okkur að leyfa honum bara að taka sinn tíma í að koma út úr búrinu og kynnast aðstæðum á sínum hraða. En við vorum varla búin að opna búrið þegar hann stökk út og byrjaði að skoða sig um.

Og ég held hann hafi þefað af öllu sem hægt var að þefa af. Hann fór um alla neðri hæðina og út í garðinn líka, hoppaði og lék sér í grasinu (sem er full sítt þessa dagana). Við settum vatn og mat í skál fyrir hann og eftir að hafa leikið sér dáldið, þá fékk hann sér smá að borða og drakk slatta af vatni, sem er víst mjög gott mál.

Eftir svona fyrsta klukkutímann, þá var hann greinilega orðinn dáldið þreyttur á þessu öllu saman og við tókum hann inn, og hann fékk að kúra pínu í fanginu hjá mér … og það var sko ekkert slæmt.

Það var rosalega gaman að hafa hann heima í gær. Tinni var afskaplega rólegur og yfirvegaður allan tímann og við fjölskyldan tókum ekki af honum augun í þessa 3 tíma sem hann var hjá okkur.

Og svo kemur hann aftur í dag … og okkur hlakkar mikið til!

Tinni er mitt nafn

Já, í dag var það gert opinbert að litli hvolpurinn okkar fær nafnið Tinni. Það voru mörg góð og fín nöfn sem komu til greina, en þetta varð fyrir valinu.

TinniÁ 17. júní þá settumst við niður fjölskyldan, settum nokkur nöfn á blað og ræddum málin. Á listanum voru nöfn eins og Kátur, Kolur, Veltikall, Tinni, Potter, Valur, Dofri, Snúður Snær, Moli, Blómi, Gormur, Kútur og svo síðast en ekki síst Levý Kolbeinn Snúður Hlynsson.

Það voru þarna nokkur sem stóðu uppúr, Moli, Gormur og Dofri voru vinsæl og svo auðvitað Tinni.

Án þess að fá botn í umræðuna, lögðum við af stað í bæinn til að taka þátt í hátíðarhöldunum í miðbæ Reykjavíkur. Við vorum alveg hrikalega umhverfisvæn og tókum strætó í bæinn. Sigurlaug Birna var með okkur, hún gisti hjá okkur um nóttina því hún var að fara erlendis í útskriftarferð með vinum úr MH.

Við fórum út hjá Landsspítalanum og ætluðum að labba niður í bæ. Við tókum stefnuna á Sundhöllina og það var varla rætt annað en hundanöfn á leiðinni og hvað við ættum nú að velja á litla sæta hvolpinn okkar.

Okkur Gullu hafði alltaf litist best á Tinna nafnið og ef Hlynur myndi vilja það líka, þá yrði það ofaná.

Rétt áður en við komum að Sundhöllinni, þá ákvað Hlynur Snær sig og vildi fá Tinna. Við samþykktum það með fjölskylduhandabandi og þegar við heimsóttum hann í dag var Tinni boðinn velkominn í fjölskylduna.

Endurvakning og nýr meðlimur á heimilið

Í tilefni þess að við erum að fá nýjan meðlim inn á heimilið á næstu vikum fannst mér tími til kominn að endurvekja þessa síðu eftir að hafa legið í dvala í langan, langan tíma.

HvolpurinnTiliefnið er þessi litli hvolpur hérna til hliðar. Þetta er tæplega tveggja mánaða Yorkshire Terrier rakki sem nú um stundir gengur undir nafninu Levy. Við erum þessa dagana að velta fyrir okkur nöfnum á nýja hvolpinn.

Hlynur Snær hefur beðið okkur foreldrana lengi um hvolp, og svarið sem hann fékk lengi vel var: “Við erum að hugsa málið”.

Fyrir nokkrum mánuðum fór ég svo til ofnæmislæknis til að tékka á mér (er með kattaofnæmi). Læknirinn sagði að ég hefði smá vott af hundaofnæmi, en með réttum aðgerðum, réttu vali á tegund og svo framvegis ætti þetta að vera í góðu lagi.

Hófst þá leit að réttri tegund. Ég las mér mikil til á netinu, þar sem gnægð upplýsinga er að finna um hunda og hundategundir. Ég komst að því að þeir hundar sem hafa hár í stað felds eru miklu betri, þó að ofnæmisvakinn sé ekki í hárunum sjálfum, heldur í próteinflyksum sem hann gefur frá sér.

Það voru nokkrir smáhundar sem komu til greina, en okkur leist eiginlega strax best á Yorkshire Terrier tegundina. Tegundir eins og Maltese og fleiri komu  líka til greina. Við fundum svo ræktanda uppi í Mosfellsbæ sem hafði selt kunningjafólki okkar hvolp fyrir 2 árum síðan. Og þann 29. apríl fæddust þar þrír rakkar undan Tómasi og Lólu.

Fyrir tveimur vikum síðan fórum við Gulla tvö ein til hennar og skoðuðum hvolpana, sem voru þá rétt rúmlega fjögurra vikna gamlir. Og þá var ekki aftur snúið.

Og í gær fékk svo gullmolinn á heimilinu að koma með okkur í heimsókn þar sem við fengum að velja okkur hvolp úr hópi þeirra þriggja rakka sem voru í boði.

Og litli Levy varð fyrir valinu. Hann er rólegur og yfirvegaður hvolpur sem ætti að henta okkar fjölskyldu mjög vel.

Og eins og gefur að skilja þá er yngsti meðlimur fjölskyldunnar að springa úr spenningi yfir þessu öllu saman. Eins og ég sagði í byrjun, þá hefur hann óskað sér hvolps mjög lengi. Okkur öll hlakkar mikið til að fara í þessa ferð saman, að fá hvolpinn í fangið, ala hann upp og hugsa um hann eins vel og við getum í langan tíma.

Meira um það síðar …

Nýtt logo fyrir ODIN Software

Við erum að hanna logo fyrir ODIN, kerfið sem ég er að smíða í vinnunni. Það er hægt að fara inn og greiða atkvæði um þau merki sem við létum hanna: http://99designs.com/logo-design/vote-97eb9.

Vortónleikar Hlyns Snæs 2010

Hlynur Snær spilaði á vortónleikum Suzuki tónlistarskólans síðastliðinn laugardag, 24. apríl í Grensáskirkju. Er hann ekki flottastur ?